SLAGTOG ÓSKAR YKKUR ÖLLUM GLEÐILEGS NÝS ÁRS
Árið 2022 hefur verið viðburðaríkt fyrir okkur í Slagtogi. Í maí luku fimm okkar þjálfun fyrir þjálfara. Þjálfunin stóð yfir í tvö ár og var leidd af Irene Zeilinger, stofnanda belgísku félagasamtakanna Garance. Þjálfunin var styrkt af Erasmus+ og verðum við ævinlega þakklát því tækifæri og stuðningi.
Snemma á árinu bættist svo nýr meðlimur í þjálfarahóp Slagtogs, en það er Meeri, sem nú er í ferli að verða þjálfari. Meeri er menntuð sem dansari og auk þess sem danskennari. Hún hefur mikla reynslu af því að nota mismunandi aðferðir til að kenna fólki að beita líkömum sínum og er frábær viðbót við núverandi þjálfarateymi.
Í Apríl leigðum við sumarbústað nálægt Þingvöllum og héldum þar tveggja daga vinnusession með það að markmiði að festa á blað gildi Slagtogs og móta framtíðarstefnu fyrir starfið. Eftir miklar umræður, vangaveltur og hlátur höfuðum við erindi sem erfiði og kvöddum Þingvelli með skýra stefnu og gildi.
Á árinu 2022 hefur Slagtog kynnt starf sitt fyrir og/eða verið í samstarfi við fjölmörg félagasamtök á Íslandi sem Zahra tók mikinn þátt í að leiða. Má þar helst nefna WOMEN in Iceland, Kvennaathvarfið, Hinsegin félagsmiðstöðina, Samtökin 78, Rauða Regnhlífin Red Umbrella Iceland, Póst-dreifingu og Andrými.
Við fengum fleiri tækifæri í gegnum styrki, í þetta sinn frá norrænum styrk. Slagtog naut þeirra forréttinda að vera samstarfsaðilar Autonomia, pólskra félagasamtaka sem einnig kenna femíníska sjálfsvörn (Wen-Do). Þjálfarar frá Autonomia komu til Íslands og héldu tvö helgarnámskeið fyrir pólskar konur, en Anna skipulagði heimsókn þeirra og námskeiðin út í gegn. Partur af því var námskeið sem Slagtog hélt sérstaklega fyrir þjálfarana frá Autonomia til þess að deila og ræða um mismunandi aðferðir femínískrar sjálfsvarnar, seminar með Tabú þar sem fjallað var um Nei þýðir Nei herferðina og FSV þjálfun fyrir fatlaðar konur. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs og verkefna með Autonomia.
Í Júlí héldu Hildur og Mariam námskeið á Hátíðni, sjálfskipulagðri tónlistahátíð sem haldin er á Borðeyri í Hrútafirði. Það er í fyrsta sinn sem Slagtog heldur námskeið á tónlistarhátíð og var það spennandi og krefjandi verkefni. Ekki hika við að hafa samband við okkur ef þið viljið hafa námskeið í femínískri sjálfsvörn á viðburði sem þið berið ábyrgð á.
Um haustið bauð Heima listamanna residensía Slagtogi að koma og halda helgarnámskeið fyrir hinsegin fólk á Seyðisfirði. Hildur og Elí fóru þangað og héldu í fyrsta sinn 14 klst námskeið fyrir hinsegin fólk eingöngu. Námskeiðið gekk mjög vel og við fengum helling af gagnlegri endurgjöf og tækifærum til þess að eiga í mikilvægum umræðum um forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi sem beinist að hinsegin fólki.
Eftir alltof langan tíma með hálfóvirka heimasíðu fengum við frábæran hönnuð, Deni, sem einnig er þjálfari í femínískri sjálfsvörn í Rúmeníu, til þess að setja upp nýja heimasíðu fyrir okkur. Í samstarfi við hana skrifuðum við efni, Mariam myndskreytti og í dag erum við stolt af ótrúlega flottri og skýrri heimasíðu sem þið eruð á núna!
Frá og með Júlí byrjaði Slagtog að halda að minnsta kosti eitt námskeið á mánuði og við fögnum því að á árinu 2022 hafa tæplega 80 konur og hinsegin einstaklingar mætt á námskeið hjá okkur. Við höfum lært óendanlega mikið af öllum þátttakendum og fyrir það erum við meir og þakklát.
Við byrjum 2023 á að ferðast til Brussel til að loka stóru samstarfsverkefni með Garance og rúmensku félagasamtökunum Riposta. Við lítum með von og eldmóði fram á veginn til komandi tíma og áframhaldandi baráttu gegn kynbundnu ofbeldi.